.

Má bjóða þér Fairtrade kaffi og orkusparandi peru?

Á heimasíðu Auglýsingamiðlunar er að finna skemmtilega grein eftir Þórdísi Jónsdóttur og Rúnu Dögg Cortez:

-------------------------------------------------------------------------------------------
Eru neytendur farnir að stjórna markaðsaðgerðum meira en fyrirtæki gera sér grein fyrir? Búa fyrirtækin til þörfina fyrir vörum sínum og þjónustu eða koma kröfur í auknu mæli frá neytendum sem ýtir á þróun þjónustu og vöru?

Margir litlir þættir gera það að verkum að allt í einu er tiltekin vara orðin vinsælli en önnur og í mörgum tilfellum er engin skýring fyrir vinsæld hennar. Neytendur grípa á lofti hugmyndir sem þeir fylgja til skamms tíma og gera að lífstíl.
Erfitt er að segja til um hvenær ákveðin bylgja er orðin að trendi vegna þess hve huglægt það er en ýmsar vísbendingar eins og til dæmis aukning í sölu, fjöldi nýskráðra í tiltekna þjónustu, aukin umfjöllun um málefni í fjölmiðlum o.s.frv. getur gefið kynna að um trend sé að ræða.

Eflaust eru ákveðnir þjóðfélagshópar næmari fyrir trendum en aðrir eða að trend eru meira áberandi hjá sumum hópum. Oft er það svo að eitthvað æði grípur um sig til dæmis meðal unglinga. Ákveðin tíska brýst út og fer hratt um unglingahópinn. Síðastliðið vor var sennilega annar hver unglingur með arabaklút og í Kawasaki strigskóm hér á Íslandi. Joe Boxer náttbuxnaæði fór sem hvirfilvindur um landið á síðasta ári og lifir enn. Fyrir tæpum 20 árum sá Vinnufatabúðin um að klæða unglinga, annar hver unglingur var í svörtum eða grænum Fighter jakka og hermannaskóm úr Vinnufatabúðinni. Hvað er það sem kemur slíku æði af stað? Söluaðilar arabaklúta á Íslandi voru ekki með miklar markaðsaðgerðir í gangi, ekki heldur söluaðilar Kawasaki skó fyrr en helmingur unglinga var þegar búinn að verða sér úti um skóna. Það voru því ekki hefðbundnar markaðsaðgerðir sem leiddu trendið heldur varð það til innan hópsins. Það er erfitt að benda á þann eða þá sem hrintu slíku æði í gang. Var það ákveðinn hópur unglinga sem leiddi trendið? Voru vörurnar áberandi í sjónvarpsefni sem hópurinn fylgdist með? Hvað er það sem stjórnar því hvort vara/þjónusta nær hámarki og hvað geta fyrirtæki gert til að hámarka árangur sinn?

Ekkert eitt lögmál virðist stjórna, einmitt það gerir þetta spennandi. Meira eins og veðurspáin þar sem fjölmargir þættir ráða hvort við eigum sólríkan dag eða ekki. Engu að síður er reynt að spá fyrir um og hafa áhrif á þessa þætti. Gæði vöru/þjónustu skiptir máli, eftirspurn, ímynd hennar; sú tilfinning sem hún skilur eftir sig. Kannski er trend nákvæmlega það sem ekki er hægt að festa fingur á. Trendsetterar eru oft viðkvæmir fyrir því þegar trendið sem þeir hrærast í er komið upp á yfirborðið og “allir” eru farnir að gangast við trendinu. Trend færist til. Byrjar að springa út hjá litlum hópi, smám saman stækkar hópurinn og hægt er að benda á trendið. Trendsettar “gefa” frá sér kyndilinn og fyrr en varir er trendið sem byrjaði hjá takmörkuðum hópi orðið að normi hjá breiðum hópi.

Hinn upplýsti neytandi er kominn til að vera. Hann ákveður sumarfríið sitt sjálfur með aðstoð netsins, kaupir sér vörur á netinu, stjórnar fjármálum sínum í gegnum netbanka.

Mikil vitundarvakning í heilsu- og umhverfismálum er staðreynd. Það er engin tilviljun að stórar verslunarkeðjur eins og Tesco, ASDA og Sainsburys eru farnar að selja bómullarboli sem gerðir eru úr lífrænt ræktaðri bómull, selja Fairtrade kaffi og orkusparandi ljósaperur. Allt er þetta gert til að hreinsa bæði samvisku þeirra og okkar því þegar öllu er á botni hvolft viljum við jú öll fara að sofa aðeins ánægðari með okkur og okkar hlut í þessum heimi. Vitundarvakningin er trend sem breiðist hægt og rólega út. Eftir nokkur ár verður hún orðin að normi.

Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera með vel skilgreinda vöru/þjónustu og greiningu á neytendum sínum og þeim hópi sem þeir vilja ná betur til. Hverju kallar neytandinn eftir, hverjar eru þarfir hans? Úr hvaða átt kemur næsta trendbylgja? Hvernig er best að bregðast við henni til að ná leiðandi stöðu meðal samkeppnisfyrirtækja?

Greiningarvinna auðveldar fyrirtækjum að nálgast neytendur sína og getur skipt sköpum í samkeppni við önnur fyrirtæki. Það getur verið vinna að fylgjast með þeim trendum sem eru í gangi og í uppsiglingu en með markvissu starfi er það framkvæmanlegt og ætti að vera fastur þáttur í markaðsstarfssemi fyrirtækja.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband